Um Steinhúsið
Steinhúsið er fyrsta steinsteypta húsið á Hólmavík á Ströndum, byggt árið 1911. Búið er að gera húsið upp í gamaldags stíl og er það aftur orðin bæjarprýði á Hólmavík sem er lítið sjávarþorp á Vestfjörðum. Í húsinu eru þrjár íbúðir með sér inngangi. Í íbúðunum er boðið upp á gistingu með uppbúnum rúmum. Ýmislegt gamalt sem fannst í húsinu við endurbæturnar er notað til skrauts svo að saga þess verði sjáanleg fyrir gesti. Einnig er lögð áhersla á að hvert herbergi sé hlýlegt og persónulega innréttað. Þetta er glæsilegt hús með fróðlega sögu og góða sál.
Steinhúsið skiptist í aðalbyggingu frá árinu 1911 og viðbyggingu frá
árinu 1928. Í aðalbyggingunni eru fimm tveggja manna herbergi á efri hæðinni
með lítilli snyrtingu og stórum svölum. Tvær stórar stofur, rúmgott baðherbergi
og vel útbúið eldhús eru á neðri hæðinni. Í viðbyggingunni er lítil en glæsileg
tveggja herbergja íbúð með góðri eldunaraðstöðu, baðherbergi með sturtu og
hjónarúmi í svefnherberginu. Í kjallaranum er notaleg vel útbúin stúdíoíbúð með
eldhúskrók, svefnrými með hjónarúmi og barnarúmi og rúmgóðu baðherbergi með
baðkari.
Verið velkomin í Steinhúsið á Hólmavík